Ég bið þig um hjálp

Ég get ekki farið þessa ferð án hjálpar frá góðviljuðu fólki. Söfnunarreikningur er í Nýja Landsbankanum
0161-15-550165
eða Sparisjóði Skagafjarðar 1125-05-250067.
Kennitala viðtakanda er 010467-5439.

Margt smátt
gerir eitt stórt!

Ef 30.000 Íslendingar gefa 1000 krónur er markmiðinu náð. Ef 60.000 Íslendingar gefa 500 krónur er markmiðinu náð.

Auðveld leið til að gefa til styrktar ferð minni er að láta taka td. 500 kr. mánaðarlega af kreditkortareikningnum. Margt smátt gerir eitt stórt. Ég yrði þér þakklát það sem eftir er ævi minnar.

Blog safn

02.01.2016

Vinátta

Áramót virka á mig eins og fjölmarga aðra, þau eru mér tækifæri til til að skoða farinn veg og til að horfa fram á við. Jú, ég upplifði sorg, missir, gleði og sigra. Ég eignaðist nýja vini en tapaði líka vináttu sem hugsanlega hefði getað orðið dýrmæt og góð.
Lesa meira »

01.12.2015

Hugsi

Já þannig er þetta eiginlega búið að vera í haust, ég hef verið hugsi …aldrei þessu vant. Legg yfirleitt ekki í vana minn að hugsa of mikið …en sko, fötlunarfræðin sem ég hef verið að læra í HÍ og er nú loksins búin með diplómu í hefur vakið hjá mér spurningar, og pælingar. Hvað er eiginlega málið í þessu einsleita samfélagi okkar?
Lesa meira »

26.07.2015

Skrítinn tími

Eiginlega bara dæmalaust gott að eiga framundan eitthvað sumarfrí, samt dæmalaust vont að vera ekki með nein plön í gangi þessa sumarfrísdaga. eina planið er að halda mig sólarmegin eftir því sem hægt er í þessu annars hitalitla landi.
Lesa meira »

06.06.2015

Hvernig á maður eiginlega fara að þessu?

Það þarf greinilega hörmungar til að ég skrifi, kannski er ég bara þannig gerð að þurfa að skrifa mig frá hlutunum. Setja sorg mína í orð til að fá útrás fyrir tilfinningar sem einhvernvegin verða mér of stórar. Elsku hjartans perlan hún mamma mín er orsökin, hún er farin frá mér, farin frá okkur systkinunum sex, barnabörnum og barnabarnabörnum, horfin eiginmanni sínum og okkur öllum sem lifum á þessari jörð.
Lesa meira »

13.08.2014

Allskonar sumar

Sólin er svona sparifyrirbæri sem við þessi sólelskandi þjóð njótum svo alltof sjaldan, ég hef reyndar notið hennar í sumar bæði heima og að heiman svo ég kvarta ekki, fékk þó alveg sæmilegt af rigningu líka. Í maí kláraði ég fyrri hluta af diplóma í fötlunarfræðum við HÍ með þessa fínu einkunn upp á 9 mér til undrunar og ánægju, svo ég held ótrauð áfram þar í haust.
Lesa meira »

12.04.2014

Nágrannin er ekki minni máttar þó hann geti ekki klippt sig sjálfur

Einhvernveginn gerist það að tíminn líður og enn er komið vor, ég má líklega þakka fyrir að vera svo lánsöm að hafa nóg að gera, nóg að hugsa um flesta daga. Stundum staldra ég aðeins við og kíki hér inn, úbbs það er svona langt síðan síðast, hugsa ég og set svo í skrifgírinn. Ekki það að ég hafi svo mikið eða merkilegt að segja en, samt, er ég svolítil prósenta af alheiminum, eiginlega ekki mælanleg, en samt, líklega mælanleg.
Lesa meira »

01.02.2014

…vonin lifir

Já, auðvitað lifir hún, vonin. Eitt af því sem mannkynið er svo heppið að eiga, við erum drifin áfram af voninni um að eitthvað betra, um að hitta ástvini okkar aftur ef ekki í þessu lífi þá því næsta, að ganga aftur, að elska aftur, að eiga gott líf og elskuríkt – hvernig sem við förum að því.

Ég var boðin í þrítugsafmæli hjá litlu stelpunni sem ég passaði einu sinni, omg hvert fór tíminn. Hún var  falleg með kúluna sína og litlu tveggja ára gersemina sína, bráðum verður hin gersemin komin í heiminn. Ég hitti ömmurna og afana og langömmuna, gleðileg stund og gaman að sjá að gengur vel hjá henni og hennar manni. En hvert fór tíminn, ég bara spyr? Svo stutt síðan ég hélt á þessari litlu tátu á háhesti og átti þá engin börn sjálf. Lífið er bara stutt – svo stutt og sum okkar eiga enn styttri tíma með elskunum okkar en önnur.

Lífið minnir stundum harkalega á sig og áður en við getum hönd yfir höfuð borið er ástvinur farin og það eina sem þá er eftir er vonin – vonin um að tilvistin sé ekki bara sú sem við lifum hér og nú heldur að við munum sameinast aftur faðma að okkur elskuna sem frá okkur var tekin og gleðjast með henni á ný. Þannig er vonin óbilandi og til staðar þegar á þarf að halda.

Ég átti góðan tíma með elskunum mínum um jólin, fékk að hafa hjá mér öll mín börn, tengdabörn og eldra barnabarnið. Svo langt síðan við höfum verið öll saman á þessum tíma, ég og börnin mín þrjú, ég þakka allar stundir með þeim þó ég sé því miður of lokuð manneskja til að láta það nógu mikið í ljós akkúratt þá stund, eða kannski finnst mér ég aldrei segja það eða láta í ljósi nógu mikið hversu mikils virði tíminn er með þeim. Ég er í hlutverki foreldris; að hlusta, leiðbeina, hvetja og stundum veit ég að leiðbeiningar mínar eru mótteknar sem skammir frá mér. Langar þá bara til að umvefja þessar sálir sem ég bar í heiminn og gefa þeim allt sem ég get til að þeirra líf verði gott. Í dag veit ég að ég verð allt lífið að læra það sem ég kunni ekki fyrir 27 árum – að vera foreldri. Hyggjuvitið verður því að duga mér og mínum börnum. Þau eru mínir bestu vinir nú og alltaf. Ég fagnaði áramótum með mínum frábæra yngri syni, dóttlan farin á ball á Akureyri og elsti sonurinn komin í faðm tengdafjölskyldunnar í Reykjavík. Við elskan mín í miðið áttum góða stund á gamlárskvöld – eiginlega bara frábæra og ég er þakklát – Von mín er sú að ég muni eiga margar góðar stundir í framtíðinni með elskunum mínum öllum, að lífið gefi okkar góðan tíma til að gleðjast saman og takast á við það sem lífið færir okkur hverju sinni. Þar til næst – eigið góðar stundir með elskunum ykkar.

14.12.2013

Desember

Desember, litríkt rökkrið, hvít jörðin, jafnvel 20 stiga frost og ég, mín veröld, minn heimur.

Paufast í helfrosinn bílinn og set í gang, kem mér inn aftur og beint í kaffið, tvölfaldur skammtur af kaffi í einfaldan skammt af vatni, það dugar ekkert minna meðan ég bíð eftir að þiðni af rúðunum. Drekk bragðmikið kaffið og held ég sé að hlusta á útvarpið, en var í raun fjarverandi og vissi ekkert hvað þar var sagt.
Lesa meira »

28.10.2013

Október …en í gær var ágúst

Tíminn æðir áfram svo hratt að ég er vissum að vakna upp einn daginn og hafa þá, hlaupið yfir einhver tímabil ævinnar án þess að taka eftir því og er eiginlega smeik við að næst þegar ég líti í spegil verði það ekki manneskja á miðjum aldri sem blasir við heldur gráhærð gugga, sem komin er á síðasta æviskeiðið. Allavega það er komin október og í gær var ágúst. Ég þvælist á milli vinnu, skóla og funda hjá Sjálfsbjörg í borginni, allt afar lærdómsríkt og að vissu leiti spennandi að takast á við þó mér finnist hlutirnir stundum taka ótrúlega langan tíma og ekkert gerast í málefnum fatlaðs fólks þá veit ég samt að þau þokast í rétta átt.
Lesa meira »

26.08.2013

Ágúst

Sumarið liðið, vetri spáð um helgina hér verður semsagt ekkert haust samkvæmt spánni. Bændur brenndir af síðasta hausti sækja fé sitt í ágústlok.
Lesa meira »

Um mig

Ég heiti Þuríður Harpa og er venjuleg íslensk kona, 43 ára, nýlega fráskilin og á þrjú börn á aldrinum 15-23 ára. Ég er grafískur hönnuður og hef unnið sem slíkur í 22 ár. Áhugamálin hafa verið margvísleg en skemmtilegast hefur mér þótt að stunda útivist; gangandi á fjöll, skokkandi, fara á hestbak eða á skíðum. Líf mitt var einmitt á þeirri leið fyrir þrem árum að ég gæti virkilega farið að gefa mér meiri tíma fyrir mig og mína en á augnabliki tók líf mitt nýja stefnu. Ég var nýbúin að fagna þeim tímamótum að verða fertug og ferma miðbarnið þegar ógæfan dundi yfir.

Lífið tók beygju

Við hjónaleysin vorum á reiðtúr þann 26. apríl 2007 þegar hrossið sem ég var á trylltist, ég kastaðist af baki og lenti á brjóstbakinu ofan á grjótnibbu. Ég hryggbrotnaði, rifbeinsbrotnaði og lamaðist frá brjóstum. Það var einkennileg tilfinning að finna allt í einu ekkert fyrir neðri hluta líkamans. Mig óraði þá ekki fyrir því að það yrði hlutskipti mitt. Ég fór í aðgerð á Landspítalanum morguninn eftir og var mínum nánustu þá tjáð að ég yrði trúlega í hjólastól það sem eftir væri ævinnar. Síðan tók við 6 mánaða endurhæfing á Grensás. Að henni lokinni kom ég heim í hjólastól, sem er það erfiðasta sem ég hef gert á ævinni. Sem betur fer eru hendurnar heilar og því gat ég snúið aftur í mitt gamla starf.

Hvað nú?

Ég er í aðstæðum sem ég hef ekki enn fundið leið út úr. Ég geri það sem ég get til að lifa eins eðlilegu lífi og hægt er en að sjálfsögðu er ég ekki sátt með hlutskipti mitt, ég vil ekki vera bundin hjólastól. Ég hóf því leit að leið til að fá einhverja bót. Eftir nokkra leit komst ég í samband við lækni í Indlandi sem hefur þróað aðferð sem byggist á stofnfrumum úr fóstri. Eftir að hafa skoðað þessa meðferð vel og haft samband við annað fólk í sömu stöðu sem hefur notið meðferðarinnar ákvað ég að athuga hvort ég væri hæf. Indverski læknirinn dr. Geeta Shroff er búin að yfirfara mín gögn og segir að ég hafi von um að fá einhverja bót. Með vonina að vopni legg ég af stað í ferðalag til að fá kannski mátt í fæturnar á ný, eða til að geta pissað án hjálpartækja aftur.

Ekkert er hægt án fjármagns

Þessi meðferð er dýr, hún er það dýr að ég get ekki staðið sjálf undir henni. Miða við núverandi gengi gæti meðferðin sem á að ná yfir 3 ár kostað á bilinu 25 - 30 milljónir. Ég reiði mig á góðvild almennings í landinu og bið þig lesandi góður að leggja mér lið í baráttunni við að komast á fætur aftur.